Kvennakór Reykjavíkur hefur, í samráði við stjórn Gígjunnar, tekið þá ákvörðun að landsmót Gígjunnar, sem til stóð að halda í maí 2020 en varð að fresta vegna Covid-19, verði haldið dagana 16.-18. september 2021.
Því miður verður ekki hægt að halda mótið í maí 2021 eins og áður var stefnt að. Ástæðan er fyrst og fremst sú að Harpa var ekki laus á því tímabili sem stefnt var að. Landsmótsnefnd vill alls ekki ekki sleppa því tækifæri að bjóða þátttakendum að halda tónleika í glæsilegasta tónleikasal landsins, Eldborg og því var tekin sú ákvörðun að færa mótið fram á haustið. Landsmótsnefnd og stjórn Gígjunnar vonar að kórkonur Gígjunnar taki þessari ákvörðun fagnandi og vonar jafnframt að jafnvel enn fleiri konur skrái sig á mótið í september 2021 en höfðu skráð sig á mótið sem átti að halda í maí 2020.
Að því sögðu þá óskar landsmótsnefnd eftir því að kórar sendi inn forskráningu á mótið á netfangið landsmot2020@kvennakorinn.is með áætluðum fjölda þátttakenda fyrir 1.okt 2020 svo undirbúningur verði sem skilvirkastur.
Landsmótsnefnd hefur sett stefnuna á að áður útgefnar smiðjur og smiðjustjórar verði eins og áður hefur verið kynnt en þó með fyrirvara um breytingar. Sameiginleg lög verða þau sömu.
Einnig er stefnt á að áður útgefin dagskrá verði sú sama en staðsetning mótsins mun færast í Laugardalshöll og nágrenni þar sem í boði er frábær aðstaða í gullfallegum og gróðursælum Laugardalnum ásamt úrvali á gistingu enda mikið úrval hótela og gistiheimila í næsta nágrenni.
Óskað er eftir skráningum fyrir 1 febrúar 2021 og greiðslu staðfestingagjalds en nánari upplýsingar um það allt saman verða sendar þegar kórastarf er hafið í haust.

Við tökum fagnandi öllum ábendingum sem þið kunnið að hafa á netfangið landsmot2020@kvennakorinn.is og hlökkum til að taka á móti ykkur öllum 16.september 2021.

Sumarkveðja :)
Stjórn Gígjunnar og Landsmótsnefnd Kvennakórs Reykjavíkur
Lesa meira

Stjórn Gígjunnar hefur, í samráði við landsmótsnefnd Kvennakórs Reykjavíkur, ákveðið að fresta landsmóti Gígjunnar, sem fara átti fram dagana 7. – 9. maí nk. um eitt ár. Mun mótið verða haldið í maí 2021 og stefnan tekin á dagana 6. - 8 maí. Mun landsmótsnefnd leitast við að tryggja að allt verði með sama sniði og með sömu áherslum og nú þegar hefur verið ákveðið og mun staðfest dagsetning verða send út um leið og búið er að tryggja aðstöðu og húsakost vegna mótsins.

Með þessu vilja Gígjan og Kvennakór Reykjavíkur eyða allri óvissu vegna þessarar fordæmalausu stöðu sem uppi er í samfélaginu. Með því að fresta mótinu um heilt ár ætti kórum að gefast nægur tími til skipulagningar, vorið er besti tíminn í kórstarfi til að mæta á landsmót þar sem kórar hafa haft allan veturinn á undan til æfinga og undirbúnings.
Einnig leggur landsmótsnefnd Kvennakórs Reykjavíkur mikla áherslu á að halda eins glæsilegt mót og hægt er og með því að fresta mótinu um heilt ár gefst nefndinni aukið svigrúm til að tryggja að öll aðstaða og aðföng verði sem allra best.

Öllum kórum sem höfðu skráð sig á landsmót í maí 2020 og greitt staðfestingargjald, stendur til boða að fá gjaldið endurgreitt en einnig geta kórar geymt greiðsluna sem staðfestingu fyrir þátttöku á mótið í maí 2021. Það er hverjum kór í sjálfsvald sett hvernig þeir kjósa að hafa það. Ef kórar kjósa að geyma greiðsluna og fjöldi þátttakenda frá hverjum kór breytist, þá verður það gert upp þegar nær dregur. Ef kórar kjósa endurgreiðslu, þá er best að senda póst á landsmot2020@kvennakorinn.is og landsmótsnefnd endurgreiðir um hæl.
Breytt dagsetning vegna lokagreiðslu verður send út síðar.

Strax eftir helgi hefst vinna hjá landsmótsnefnd Kvennakórs Reykjavíkur við það að endurbóka allt það sem tilheyrir svona stóru móti og verður staðfest dagsetning fyrir landsmót í maí 2021 send út eins fljótt og mögulegt er.

Ég veit að þið, kæru kórkonur, sýnið þessu skilning og vona að þið mætið allar sem ein með gleðina að vopni á landsmót Gígjunnar í Reykjavík í maí 2021. Ef þið hafið einhverjar athugasemdir, spurningar, ábendingar, eða hvað sem er þá tekur landsmótsnefnd fagnandi á móti þeim í gegnum netfangið landsmot2020@kvennakorinn.is

Ég óska ykkur alls hins besta í ykkar kórstarfi, hvernig sem því mun verða háttað á komandi vikum og mánuðum og sendi rafrænt knús á línuna.

Fh. Stjórnar Gígjunnar og landsmótsnefndar Kvennakórs Reykjavíkur,
Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Gígjunnar

Lesa meira
Kvennakór Reykjavíkur auglýsir eftir vönum kórsystrum í allar raddir en þó sérstaklega í sópran
Kórinn heldur Landsmót íslenskra kvennakóra 2020 í Reykjavík í maí 2020 og er því spennandi og skemmtileg vorönn framundan þar sem undirbúningur, æfingar og almenn gleði verður í hávegum höfð.
Kórstjóri Kvennakórs Reykjavíkur er Ágota Joó en kórinn er metnaðarfullur kór sem æfir alla mánudaga og fyrsta miðvikudag í mánuði kl 18:30 - 21:30 á Vitatorgi, Lindargötu 59 í Reykjavík.
Ef þú ert yngri en 55 ára og langar til að taka þátt í metnaðarfullu, skemmtilegu og fjölbreyttu kórstarfi í frábærum hópi kvenna, endilega kíktu til okkar í raddprufu en þær fara fram 7.janúar kl 18-20 í Tónskólanum Do Re Mi, Frostaskjóli 2, 107 Reykjavík (KR-Heimilinu) og sendu okkur tölvupóst á netfangið postur@kvennakorinn.is svo við vitum að þú sért á leiðinni.
Reynsla af kórsöng er skilyrði. 

Við hlökkum til að sjá ykkur. 

Lesa meira

Kvennakór Reykjavíkur fagnar vorinu með lúðraþyt á vortónleikum sínum í Langholtskirkju þann 4. maí nk kl 16:00.

Sérstakur gestur er Ari Bragi Kárason trompetleikari.

Dagskráin er mjög fjölbreytt. Kórinn er á leiðinni til Ungverjalands í júní og er fyrri hluti tónleikanna helgaður verkum af því tilefni. Við munum meðal annars frumflytja Eld, verk eftir ungverska tónskáldið Peter Tóth, við texta Þórunnar Guðmundsdóttur og var það sérstaklega samið fyrir kórinn.

Eftir hlé breytir kórinn um takt þar sem trompetleikurinn verður allsráðandi í polka, swing og boogie woogie. Kórinn leitar m.a. í smiðjur Andrewssystra, Guðrúnar Á. Símonar og Lady Gaga þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Stjórnandi kórsins er Ágota Joó og hljómsveitarstjóri er Vilberg Viggósson.
Hljómsveitina skipa Einar Scheving á trommur, Hávarður Tryggvason á kontrabassa, Vilberg Viggósson á píanó og Zbigniew Dubik á fiðlu.
Sérstakur gestur kórsins á tónleikunum er eins og áður segir Ari Bragi Kárason trompetleikari.

Miðaverð: 3.500 kr í forsölu, 4.000 kr við innganginn.

Miðar fást hjá kórkonum eða með því að senda tölvupóst á netfangið postur@kvennakorinn.is

Lesa meira