Lög Kvennakórs Reykjavíkur

1 .gr.

Heiti kórs og varnarþing.

Kórinn heitir Kvennakór Reykjavíkur. Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Markmið kórsins.

Markmið kórsins er að efla söngmennt meðal kvenna á öllum aldri. Markmiði þessu skal kórinn ná með því að veita kórfélögum þjálfun í söng og raddbeitingu og kynna íslenskan kvennakórssöng. Einnig skal kórinn starfrækja kórskóla og Senjorítur -kór eldri kvenna- samkvæmt starfsreglum kórsins. Stefnt skal að tónleikahaldi a.m.k. á aðventu og að vori.

3. gr.

Aðild að kórnum.

Kórfélagar eru allar þær konur sem;

1. stunda æfingar með kórnum samkvæmt starfsreglum kórsins,

2. tekið hafa inntökupróf og hlotið samþykki stjórnanda,

3. greitt hafa kórgjöld.

4. gr.

Þátttökugjöld.

Þátttökugjöld kórsins ákvarðast af stjórn hans í upphafi starfsárs. Stjórn leggur tillögu um kórgjöld fyrir aðalfund ár hvert.

5. gr.

Styrktarfélagar.

Styrktarfélagar eru þeir sem greiða árlegt gjald til styrktar starfsemi kórsins. Nánar er greint á um styrktarfélaga í starfsreglum kórsins.

6. gr.

Heiðursfélagar.

Stjórn kórsins er heimilt að tilnefna heiðursfélaga og skal sú tilnefning borin undir aðalfund.

7. gr.

Starfsár.

Starfsár kórsins skal að jafnaði vera frá byrjun september til maíloka og skiptist í haust- og vorönn.

8. gr.

Aðalfundur.

Aðalfundur fer með æðsta vald í kórnum. Aðalfund skal halda fyrir 15. nóvember ár hvert. Stjórn kórsins skal boða til aðalfundar með auglýsingu í æfingahúsnæði kórsins, eða með öðrum óyggjandi hætti, með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði, sem birta skal á áberandi hátt í æfingarhúsnæðinu, skal greint frá fundarstað, fundartíma og dagskrá. Þá skal geta megin efnis tillagna þeirra sem leggja á fyrir fundinn og einnig skulu lagabreytingartillögur sem fram hafa komið fylgja fundarboði.

Aðalfundur telst því aðeins lögmætur hafi löglega verið til hans boðað. Aðalfundi verður því aðeins frestað ef fullgildar ástæður liggja að baki að mati stjórnar. Hann skal þó haldinn innan tveggja vikna frá frestun og boðað til hans með a.m.k. viku fyrirvara.

9. gr.

Dagskrá aðalfundar.

1. Fundarsetning (formaður)

2. Skipun fundarstjóra og fundarritara.

3. Formaður flytur skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár.

4. Gjaldkeri flytur og skýrir endurskoðaða reikninga fyrir síðasta starfsár.

5. Umræður og atkvæðagreiðsla um skýrslu stjórnar og reikninga.

6. Kosning formanns, stjórnar og varastjórnar kórsins.

7. Kosning í búninganefnd, nótnanefnd, fjölmiðlanefnd, tónleikanefnd og styrktarfélaganefnd sem eru fastanefndir.

8. Skipun tveggja endurskoðenda.

9. Umræður um löglega framkomnar lagabreytingatillögur sbr. 11. gr.

10. Atkvæðagreiðsla um lagabreytingar.

11. Önnur mál.

12. Fundarslit.

10. gr.

Fundarseta og vægi atkvæða.

Allir kórfélagar í Kvennakór Reykjavíkur skv. 3. gr. hafa málfrelsi, tillögurétt og atkvæðisrétt á fundum kórsins. Tillaga fellur á jöfnum atkvæðum.

11. gr.

Lagabreytingar.

Lögum kórsins verður aðeins breytt á aðalfundum. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn kórsins eigi síðar en 3 vikum fyrir aðalfund og skulu þær birtar á sama hátt og aðalfundarboðið. Til breytinga á lögum kórsins þarf samþykki 2/3 fundarkvenna.

12. gr.

Stjórn, kjörgengi og kjörtími.

Stjórn kórsins skipa fimm konur. Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Allir fullgildir kórfélagar sbr. 3. gr. eru kjörgengar. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára og eftir það má endurkjósa hann til eins árs í senn. Aðrar stjórnarkonur skulu einnig kosnar til tveggja ára. Stjórnin skiptir með sér verkum að kosningu lokinni.

Aldrei skulu fleiri en tvær stjórnarkonur, auk formanns, láta af störfum samtímis. Engin stjórnarkona skal sitja lengur samfellt í stjórn en 4 ár.

Tvær konur skulu kosnar til vara í eitt ár. Varastjórnarkonur eiga rétt til setu á fundum stjórnar með tillögurétti og málfrelsi en ekki atkvæðisrétti nema þær sitji fund í forföllum stjórnarkonu. Varastjórnarkonur skulu taka sæti stjórnarkonu í þeirri röð sem hlutfallslegt kjörfylgi þeirra á aðalfundi segir til um.

13. gr.

Stjórnarfundir og verkefnaskipting stjórnar.

Formaður boðar til stjórnarfunda og félagsfunda annarra en aðalfunda og stjórnar þeim. Varaformaður gegnir formannsstörfum í fjarveru formanns. Gjaldkeri annast allar fjárreiður kórsins og skal leggja fram endurskoðaðan efnahags- og rekstrarreikning hvers árs á aðalfundi kórsins. Reikningsár kórsins er frá 1. september til 31. ágúst. Ritari heldur gjörðabók kórsins og stjórnar, annast félagatal og hefur á hendi umsjón með skjölum þess. Ritari birtir í október og febrúar ár hvert lista yfir starfandi kórkonur í samráði við stjórnanda og stjórn.

14. gr.

Starfssvið stjórnar.

Stjórnin fer með stjórn kórsins milli aðalfunda. Hún tekur ákvarðanir um kórstarfið, ræður kórstjóra og ber að kalla til ráðgefandi aðila við val hans og aðra starfsmenn ef þurfa þykir og hefur samráð við kórstjóra um þau mál er að söngstarfi lúta, s.s. verkefni kórsins og æfingatíma. Stjórnin skipar starfsnefndir eftir þörfum. Einnig skipar stjórn kórsins í samráði við stjórnanda, fjóra raddformenn, einn úr hverri rödd.

Formaður (varaformaður í forföllum formanns) og gjaldkeri mega skuldbinda félagið sé samþykki stjórnar fengið fyrir slíkri skuldbindingu. Stjórnarfundur er löglegur, þegar a.m.k. þrjár stjórnarkonur eru samankomnar, þeirra á meðal formaður (varaformaður í forföllum formanns).

Stjórnarfund er skylt að halda ef tveir aðalstjórnarmenn krefjast þess skriflega og skal hann þá haldinn innan viku frá beiðni.

15. gr.

Félagsfundir.

Félagsfundi skal halda eftir þörfum, þó a.m.k. einu sinni á vorönn. Kórstjórn er skylt að boða til félagsfundar óski 1/5 (einn fimmti) hluti kórkvenna þess skriflega og geti tilefnis. Félagsfundir skulu boðaðir með a.m.k. viku fyrirvara með auglýsingu á æfingarstað kórsins eða með öðrum óyggjandi hætti. Félagsfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Tillögur félagsfunda skulu hljóta meirihluta atkvæða til samþykktar en falla á jöfnum atkvæðum.

16. gr.

Tónverkasjóður.

Kórinn starfrækir tónverkasjóð samkvæmt starfsreglum.

17.gr.

Slit kórsins.

Kórslit verða eigi ákveðin nema á sérstökum félagsslitafundi, sem stjórn kórsins boðar til, með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Sérhverri kórkonu skal sent fundarboð þar sem tilefni fundarins er tilgreint. Félagsslitafundur er því aðeins lögmætur að 2/3 (tveir þriðju) fullgildra kórkvenna sæki fundinn. Félagsskap kórsins verður því aðeins slitið að 2/3 (tveir þriðju) þeirra kórkvenna sem mættar eru á félagsslitafundi samþykki það í leynilegri atkvæðagreiðslu. Verði félagsslitafundur eigi lögmætur skal boðað til hans á ný á sama hátt en með viku fyrirvara og telst hann þá lögmætur óháð fundarsókn.

Ef samþykkt er að slíta félaginu ber að fresta félagsslitafundi en kjósa þrjár kórkonur í skilanefnd er jafnframt skal skipuð formanni kórsins og gjaldkera. Skilanefnd ber að kalla inn allar skuldir kórsins, selja eignir hans til lúkningar skuldum og gera tillögur um ráðstöfun eigna umfram skulda. Tillögur skilanefndar skulu bornar undir félagsslitafund sem boðaður skal að nýju innan árs frá frestun og á sama hátt og gert var fyrir frestun.

Til samþykktar frumvarps skilanefndar og endanlegra félagsslita þarf samþykki 2/3 (tveir þriðju) fullgildra kórkvenna sem til fundarins mæta.

18. gr.

Gildistími.

Lög þessi öðlast þegar gildi og eru eldri lög úr gildi fallin.

Reykjavík, 15. september 2000