1993

Aðdragandi að stofnun Kvennakórs Reykjavíkur

„Þessa dagana standa yfir stífar æfingar hjá Kórskóla Margrétar J. Pálma­dótt­ur í Kram­hús­inu því Kór­skól­inn ætlar að halda jóla­tón­leika í Krists­kirkju 10. desember. …en þetta verða væntan­lega síðustu tónleikarnir sem þessi hópur stendur að undir merki Kór­skólans því um áramót stendur mikið til, þá ætlum við að stofna formlega Kvennakór Reykjavíkur. Það hefur lengi verið draum­ur kórstjórans okkar Margrétar J. Pálmadóttur að stofna kvennakór hér í Reykjavík. …Við höfum notað haustið til undir­búnings og biðjum söngelskar konur um að hafa nú augu og eyru opin því við munum hafa inntökupróf í kórinn í janúar. Nú leitum við að góðum og þjálfuðum röddum til að taka þátt í þessu ævintýri með okkur.“
Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, Vera des. 1992.

„Ég hef verið með kórskóla undanfarin tíu ár, en auglýsti fyrir ári á vegum Kramhússins kórskóla fyrir konur. Sú starfsemi gekk mjög vel, við héldum vortónleika með pomp og pragt og gáfum Stígamótum ágóðann. … Það eru um 20 konur í kór­skól­an­um sem ætla að halda áfram. Leiðir okkar skildu í sumar, en síðan var stofnuð undirbúningsnefnd í haust. …Við stefnum að kór með 60 konum og því vantar okkur 40 í viðbót. … Ég mun stjórna kórnum, við verðum með tvo raddþjálfara, meðal annars mun Jóhanna V. Þórhallsdóttir söngkona sjá um raddþjálfun og tónfræðikennslu og Svana Víkingsdóttir er píanisti.“
Margrét J. Pálmadóttir, Mbl. 17. janúar 1993.


Undirbúningsnefndina skipuðu:
Margrét J. Pálmadóttir
Heiðrún Dóra Eyvindardóttir
Rannveig Pálsdóttir
Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir
Sigríður Anna Einarsdóttir
Þóra Magnúsdóttir

Fyrsta æfing í Aðventkirkjunni í Reykjavík var þann 25. janúar og fljótlega varð mikil eftirspurn eftir söng kórsins.

Sungið var á Stöð 2 í beinni útsendingu, 4. mars, vegna söfnunar fyrir veik börn.
„Mætum allar vel greiddar og málaðar, í hvítum blússum og svörtum pilsum eða buxum.“ Stjórnin.
Sungið var: Senn kemur vor og Sprengisandur, í miklum hita og þrengslum.

Kórkonur borðuðu saman í Kornhlöðunni 12. mars og marseraði kvenna­hópurinn síðan niður á Hótel Borg þar sem kórinn söng á árs­hátíð Kvennalistans.  

„Þörf sem ekki hefur verið sinnt“

„Hundrað og tuttugu konur hittast tvisvar í viku og æfa kórsöng. Þær voru í fyrra um 30 talsins og fjölgar hratt. …Hún (Margrét J. Pálmadóttir) segir að leita verði til fortíðarinnar til að skýra þenn­an mikla söngáhuga kvenna og bendir á að um 85% kór­fél­aga í barnakórum séu stúlkur.“ Tíminn 17. mars 1993.

Páska-útvarpsþáttur Jónasar Jónassonar var tekinn upp í Bústaða­kirkju. Kvennakór Reykjavíkur söng nokkur lög, Jónas ræddi við Margréti J. Pálmadóttur, kórfélagar sungu í litlum hópum og lásu upp sögur og ljóð.
Fyrstu vortónleikar í Langholtskirkju 8. og 9. maí

„Kvennakór Reykjavíkur heldur fyrstu opinberu tónleika sína í dag klukkan fimm og á morgun klukkan þrjú. Hundrað konur á aldrinum sextán ára til sextugs syngja í kórnum undir stjórn Margrétar J. Pálmadóttur.“ Fréttatilk. Mbl. 8. maí 1993.

„Kvennakór Reykjavíkur fer vel af stað og vonandi heldur þessi starfsemi áfram með stefnuna á stór og viðamikil viðfangsefni, bæði sér og í samstarfi við aðra sönghópa, t.d. karlakórana en þó fyrst og fremst til að hylla sönggyðjuna og syngja góða tónlist.“ Jón Ásgeirsson Mbl. 11. maí 1993.

„Kraftaverkin gerast enn!
Hver hefði trúað því og hér ályktað út frá upplýsingum í tónleikaskrá, að hægt væri að koma frambærilegum kór á koppinn úr engu á sléttum þrem mánuðum! …Kvennakór Reykjavíkur sannaði tilverurétt sinn með trompi, strax á fyrstu framkomunni. Stofnun Kvennakórs Reykjavíkur er hið þarfasta framtak og eftir frumraun hans að dæma er greinilega von á góðu í framtíðinni.“ Ríkharður Örn Pálsson, Kvika RÚV maí 1993.


Kvennakór Reykjavíkur var formlega stofnaður eftir tónleika í Langholtskirkju, 9. maí

Þar voru samþykkt lög um starfsemi kórsins.
Fyrsta stjórn var kjörin:
Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir, formaður
Eygló Rúnarsdóttir
Heiðrún Dóra Eyvindardóttir
Rannveig Pálsdóttir
Sigríður Anna Einarsdóttir
Að loknum stofnfundi var veisla haldin í A. Hansen, Hafnarfirði. Þar var glatt á hjalla, mikið sungið og konur spreyttu sig í Karokee.

„Úr tónlistarlífinu, 6. júní: Útvarpað frá tónleikum Kvennakórs Reykja­víkur í Langholtskirkju 9. maí sl.“ Úr dagskrá RÚV í júní.

Grillveisla var haldin í garðinum hjá Guðmundu Hrönn í Barma­hlíðinni 12. júní og síðan var farið og sungið við setningu nor­rænn­ar ráð­stefnu húð­lækna í Perlunni.

17. júní söng Kvennakór Reykjavíkur á Ingólfstorgi og í Ráðhúsi Reykja­­­­víkur lög af efnisskrá vortónleika kórsins.

„Vetrarstarf, æfingar, kórskóli, sönggleði” var auglýst 10. september og var kórskóli starfræktur í fyrsta sinn með 40 kórkonum í tveimur hópum. Einnig störfuðu áhugahópar innan kórsins, Modern-hópur, sem æfði söngleikja- og óperettutónlist og Antik-hópur sem æfði kirkjutónlist.

„Ave María” Aðventutónleikar í Hallgrímskirkju 5. desember

„Hallgrímskirkja varð of lítil.“
„ …til fyrirmyndar var efnisskrá tónleikanna þar sem erlendu textunum fylgdu alltaf þýðingar á íslensku, oft mjög fallegar.“
„…stundin í kirkjunni var indæl...“ Ragnar Björnsson Mbl. 7. des.

Jólasöngvar á aðventu, 8. desember
Tónleikar Kvennakórs Reykjavíkur í Áskirkju ásamt Barnakór Grensáskirkju.
Tónleikarnir voru haldnir í minningu Sigríðar Soffíu, móður Margrétar J. Pálmadóttur sem hefði orðið 70 ára þennan dag.

Sungið í Aðventkirkjunni ásamt kór kirkjunnar, einsöngvurum og hljóðfæraleikurum, 10. desember.

Þáttur um tónlist áhugamanna á RÚV Rás 1, 16. desember, þar sem fjallað var um Kvennakór Reykjavkur og leiknar upptökur með söng kórs­ins og talað við Margréti J. Pálmadóttur og Sigurbjörgu Aðal­steins­dóttur.