2011

Einkennandi fyrir árið 2011 var að kórinn hélt tónleika með karlakórum, bæði um vorið á Ísafirði og á aðventutónleikum. Hafinn var undirbúningur að tónleikaferð til Ungverjalands 2012 með tilheyrandi fjáröflun.


Æfingabúðir að Skógum

Konur fóru í æfingabúðir að Skógum um helgi um miðjan mars. Þar var mikið æft og sungið.
Þema kvöldskemmtunarinnar á laugardagskvöldinu voru hanskar af öllum gerðum og litum. 

Kórinn sá um kaffi 1. maí fyrir BSRB að vanda og ákvað að sleppa Landsmóti íslenskra kvennakóra sem haldið var á Selfossi þessa sömu helgi. Senjorítukórinn og Ágota héldu uppi merki okkar á mótinu.

Vortónleikar í Digraneskirkju 8. og 11. maí

Á tónleikunum var frumflutt nýtt verk Ís, eftir Báru Grímsdóttur sem hún samdi fyrir kórinn að beiðni stjórnandans Ágotu Joó. Verkið var mjög ögrandi og skemmtilegt. Á fyrri hluta tónleikanna voru mörg krefjandi tónverk og seinni hlutinn var ekki síður krefjandi með dansi, klappi og stappi. Á píanóið lék Vilberg Viggósson, á bassa Guðjón Steinar Þorláksson og á gítar lék Rúnar Þórisson. Þar að auki léku Eva Hauksdóttir og Mirjam Yrsa Friðleifsdóttir á fiðlur.

Tónleikaferð til Ísafjarðar

Seinnipartinn í maímánuði hleypti kórinn heimdraganum og fór í tónleikaferð til Ísafjarðar. Þar var vel tekið á móti okkur, jafnvel um of, því hríð og snjór tók á móti okkur á Steingrímsfjarðarheiði, sennilega í tilefni af því að við fluttum Ís eftir Báru Grímsdóttur á tónleikunum. Við héldum til á Núpi í Dýrafirði, keyptum harðfisk á Flateyri, slógum í gegn á Ísafirði ásamt Kvennakór Ísafjarðar og Karlakórnum Erni. Frábær ferð í alla staði.

Októberfest

Októberfest var haldin í sal eldri borgara Stangarhyl 4. Karlakór Kjalnesinga var boðið að vera með ásamt mökum. Kórkonur sáu um veitingar og var skemmtunin vel sótt og að sjálfsögðu var mikið sungið.

Nýir kórkjólar

Búninganefnd tók þá ákvörðun með stjórn kórsins að huga að nýjum kórbúningum. Pantaðir voru svartir kjólar hjá fyrirtækinu ELM. Ýmsir fylgihlutir voru kynntir og verður gaman að fylgjast með þeirri þróun.

Aðventutónleikar


Aðventutónleikarnir voru í Langholtskirkju 30. nóvember og 3. desember ásamt Karlakór Kjalnesinga, gestir voru Vallargerðisbræður. Óvenjumargir hljóðfæraleikarar, alls 10, komu fram á þessum tónleikum með kórunum.

Jólasamsöngur

Hinn árlegi jólasamsöngur fyrir styrktarfélaga og aðstandendur kóranna var haldinn 8. desember í Breiðholtskirkju með hefðbundnu súkkulaði og smákökum. Kvennakórinn og Senjorítur sungu fyrir gesti og allir sungu saman yfir súkkulaðinu.