Stjórnendur

Ágota Joó

Núverandi stjórnandi
Ágota Joó er stjórnandi Kvennakórs Reykjavíkur. Ágota tók við stjórn kórsins í janúar 2010 og tók hún við af Sigrúnu Þorgeirsdóttur sem stjórnaði kórnum farsællega í rúm 12 ár.
Ágota Joó er fædd í Ungverjalandi. Hún útskrifaðist frá Franz Liszt Tónlistarháskólanum í Szeged sem píanókennari, tónfræðikennari og kórstjóri. Hún flutti til Íslands árið 1988 og byrjaði kennslu við Tónlistarskóla Ísafjarðar.
Árið 1991 flutti hún til Njarðvíkur og kenndi þar á píanó við Tónlistarskóla Njarðvíkur. Einnig var hún kórstjóri Kvennakórs Suðurnesja í nokkur ár og undirleikari Karlakórs Keflavíkur í mörg ár og lék m.a. inn á tvo geisladiska með þeim.
Ágota stjórnar einnig Senjorítum Kvennakórs Reykjavíkur.

Sigrún Þorgeirsdóttir

Stjórnaði frá hausti 1997 til desemberloka 2009
Sigrún stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þar 8. stigs prófi. Sieglinde Kahmann var þar aðalkennari hennar. Hún lauk meistaranámi í söng frá Boston University og stundaði framhaldsnám í kórstjórn við Florida State University.
Sigrún hefur sungið einsöng með kórum og haldið einsöngstónleika. Hún syngur í söngkvartettinum Rúdolfi og hefur sungið inn á hljómdiska með honum. Hún hefur raddþjálfað og stjórnað mörgum kórum. Hún hefur einnig lokið BSc prófi í efnafræði frá Háskóla Íslands.
Sigrún tók við starfi kórstjóra Kvennakórs Reykjavíkur haustið 1997. Hún hefur stýrt kórskóla Kvennakórs Reykjavíkur frá haustinu 1998 þegar hann hefur verið starfandi. Hún var listrænn stjórnandi fyrsta norræna kvennakóramótsins sem haldið var í Reykjavík í apríl árið 2000.

Margrét Pálmadóttir

Stjórnaði frá stofnun 1993 til haustsins 1997
Margrét stofnaði Kvennakór Reykjavíkur ásamt nemendum sínum úr Kramhúsinu og stjórnaði honum frá upphafi 1993 til haustsins 1997. Hún hóf tónlistarferil sinn í Hafnafirði þar sem hún söng með Kór Öldutúnsskóla og kirkjukór Hafnarfjarðarkirkju.
Hún stundaði söngnám hjá Elísabetu Erlingsdóttur í Tónlistarskóla Kópavogs, í Vínarborg, Söngskólanum í Reykjavík og á Ítalíu. Leiðbeinendur hennar voru meðal annarra Svanhvít Egilsdóttir, Þuríður Pálsdóttir, Linda Pagliughi og Eugenia Ratti. Margrét starfaði sem raddþjálfari Pólýfónkórsins og Söngsveitarinnar Fílharmoníu auk ýmissa annarra kóra.
Auk Kvennakórs Reykjavíkur stofnaði hún og stjórnaði Kór Flensborgarskóla, Starfsmannakór SFR, Vox feminae, Gospelsystur (nú Cantabile), Barnakór Grensáskirkju og Stúlkna- og Telpnakórum Reykjavíkur. Starfandi kórar í dag undir stjórn Margrétar eru Cantabile, Vox feminae, Stúlknakór Reykjavíkur og Aurora.