2012

Nýir kórkjólar, myndataka, tónleikaferð til Ungverjalands, sungið til heiðurs Whitney Houston og Ingibjörgu Þorbergs voru hápunktar ársins.

Tveir langir laugardagar

Vegna utanlandsferðar var ekki farið í æfingabúðir heldur ákveðið að æfa tvo langa laugardaga, 3. og 17. mars, sem endaði með glæsilegri árshátíð í Café Meski þann 17. mars.

Ný heimasíða
Ný heimasíða var opnuð og er hún í vinnslu.

Fyrsti maí
Kórinn sá um kaffi og meðlæti fyrir BSRB þann 1. maí eins og undanfarin vor. Að þessu sinni náði biðröðin út á götu og langleiðina að Austurbæ.

Whitney Houston heiðurstónleikar
Whitney Houston heiðurstónleikar voru haldnir í Austurbæ 4. maí og söng Kvennakór Reykjavíkur bakraddir í nokkrum lögum.

„El Stauró“
Í tilefni utanlandsferðar var gefin út ný ljósastaurabók, „El Stauró“, og á hún eflaust eftir að nýtast vel.

Mynd af kórnum í nýju kjólunum
Kórkonum var stillt upp í Iðnó í nýju kórkjólunum og voru gömlu slæðurnar endurnýttar. Mikil ánægja er með kjólana sem eru frá ELM. Svo vitnað sé í kórkonu: „Mér líður eins og svakalegri söngdívu þegar ég fer í þennan glæsikjól.“

Vortónleikar í Fella- og Hólakirkju 16. og 20. maí 

Efnisskráin bar keim af því að kórinn var að fara í söngferðalag til Ungverjalands. Lögð var áhersla á íslensk verk, gömul og ný. Einnig voru flutt ungversk tónverk og þjóðlög. 

Tónleikaferð til Ungverjalands 13. til 21. júní 2012


Ferðin hófst með næturflugi til Vínarborgar og þaðan var ekið suður til Szeged sem er heimaborg Ágotu kórstjóra og fyrsti áfangastaður hópsins. Eszter Toth, sem sungið hafði með kórnum frá ársbyrjun 2011 var að flytja heim til Ungverjalands með manni sínum og fékk aðstoð kvennakórskvenna með að koma 120 kg af fatnaði o. fl., þar á meðal saumavél, til Ungverjalands! Eftir innritun á Hótel Novotel var gengið til veitingastaðarins Sótartó en þar beið ungverskt hlaðborð sem gladdi bragðlaukana. Æfing sem var á hótelinu í lok dagsins vakti athygli gesta sem komu og hlustuðu á æfinguna og í framhaldi af því mættu þeir á tónleikana daginn eftir. Ekki slæmt hjá úrvinda kór eftir langt ferðalag. 

Daginn eftir, 14. júní, var gengið um borgina undir leiðsögn Ágotu og var m.a. prófaður hljómburður dómkirkjunnar.
Tónleikar kórsins voru í Ráðhúsgarðinum um kvöldið. Söng Kvennakórs Reykjavíkur var mjög vel tekið og Béla Bartók kvennakórinn sem söng undir stjórn Péter Ordasi söng mjög vel, enda margverðlaunaður kór. Á tónleikunum sungu kórarnir saman undir stjórn Évu Rozgonyi, „A Magyarokhoz“ (Hvatningu til Ungverja) og „Úr útsæ rísa“ undir stjórn Ágotu. 

Eftir tónleikana bauð Béla Bartók kvennakórinn upp á vín og ljúffengan heimalagaðan mat í samkomusal tónlistarskólans í Szeged.
Þann 15. júní var á dagskránni m.a. skoðunarferð til Ópuztaszer (sem er einskonar Árbæjarsafn svæðisins), tyrkneskt bað, verslunarferð og skoðunarferð í samkomuhús gyðinga í Szeged.
Að því loknu var haldið heim til Lolu, móður Ágotu, sem bar fram veitingar handa öllum hópnum og að sjálfsögðu var sungið fyrir hana.

Um kvöldið buðu Ágota og Vilberg til garðveislu heima hjá sér með flottar veitingar og vín í boði frænda Ágotu, Ernö Tihanyi, fyrir 70 manns. 

Konur tóku þátt í kvennahlaupi ÍSÍ þann 16. júní og svo var haldið af stað til Búdapest sem var næsti áfangastaður. Við brottför mætti Éva kórstjóri með nesti handa öllum. Var skilið við Szeged með mikilli eftirsjá og flestir ætla að heimsækja þessa fallegu borg einhvern tíma aftur. 

Í Búdapest tók á móti okkur leiðsögumaðurinn Ferenc Utassy sem talar gullaldaríslensku og er aðalræðismaður Íslands í Ungverjalandi. Hann og Eszter, sem var þarna á heimavelli, fóru með okkur í langa skoðunarferð um borgina.
Um kvöldið var galakvöldsigling á Dóná með hlaðborði, þjóðdönsum og sígaunahljómsveit. Þjóðhátíðardaginn, 17. júní, var haldið til Vác sem er 40 km frá Búdapest og voru tónleikar haldnir í Menningarmiðstöð Vác þar sem Kvennakór Reykjavíkur söng undir stjórn Ágotu Joó, Gaude kórinn frá Göd undir stjórn Ferenc og Váci Harmónia kórinn undir stjórn Dóru Orosz. Ferenc stjórnaði öllu söngfólkinu í „Úr útsæ rísa Íslands fjöll“ og Dóra stjórnaði kórunum í „A Magyarokhoz“. 

Eftir tónleikana var farið til borgarinnar Göd þar sem boðið var upp á vínsmökkun og síðan var sameiginlegur kvöldverður í Veiðihúsi Kiss-Gödi Nemeskéri veitingahússins. 

Aðventutónleikar í Fella- og Hólakirkju 29. nóvember og 1. desember

Aðventutónleikarnir voru tileinkaðir Ingibjörgu Þorbergs. Þar voru flutt nýju lögin hennar frá afmælinu og ný útsetning á Jólakettinum ásamt jólalögum úr ýmsum áttum. Einsöngvari var Sigríður Thorlacius. Tónleikarnir voru einstaklega fallegir og skemmtilegir. 

Jólasamsöngur
Jólasamsöngur Senjoríta og Kvennakórs Reykjavíkur var 6. desember í Breiðholtskirkju. Báðir kórarnir sungu nokkur lög og í lokin saman „Ave María“ eftir Sigvalda Kaldalóns. Ragna Bjarnadóttir í Senjorítum söng einsöng í laginu með glæsibrag.