1994

Skemmtikór, fyrir konur utan kórsins, hóf starfsemi sína í janúar undir stjórn Jóhönnu V. Þórhallsdóttur og Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.

Kvennakór Reykjavíkur tók þátt í skemmtidagskrá í Háskóla­bíói, ásamt 5 kórum í tilefni af ári fjölskyldunnar 30. janúar.

„Agnus Dei“: Vox Feminae hélt sína fyrstu tónleika í mars.
„Antikhópurinn hefur skipt um nafn og kallar sig nú „Vox Feminae“ – 24 félagar úr Kvennakór Reykjavíkur. Hópurinn mun halda tónleika, laugardaginn 26. mars nk. kl. 16:00, í Seltjarnarneskirkju. Tónleikarnir eru undir stjórn Margrétar J. Pálmadóttur. Svana Víkingsdóttir, píanóleikari og Inga Backman, einsöngvari.“ Fréttabréf Kvennakórs Reykjavíkur mars 1994.

Ægisgata 7 – Kórinn eignast heimili

1. apríl 1994 tók kórinn á leigu gamla blikksmiðju í fokheldu ástandi að Ægisgötu 7. „Í kórnum er arkitekt og smiður og var húsið gert upp, málað og teppalagt, allt í sjálfboðavinnu og því fylgdi mikill og skemmtilegur félagsskapur. Hér er hátt til lofts og hljómurinn eins og hann getur bestur orðið.“ Rannveig Pálsdóttir í viðtali við Mbl. 29. júlí. Kórkonur gáfu húsgögn og annan búnað sem til þurfti og kom hver kona með sinn eigin stól að heiman; var þetta skrautlegt og skemmtilegt samansafn. Stundum heyrðist á æfingum: „Hver situr á stólnum mínum?“

Vorfagnaður Kvennakórsins í nýja húsnæðinu Ægisgötu 7, 20. apríl. Þar mættu allir starfandi hópar og var mikið sungið. Sá 1. sópran um skemmtunina. 

Vortónleikar 7. og 11. maí. í Langholtskirkju

„Kvennakór Reykjavíkur er orðinn stórveldi...“ „...hefur Margrét J. Pálmadóttir unnið gott starf og laðað fram fallega og áhrifamikla túlkun.“ „ …tónleikarnir voru framfærðir af sönggleði og þokka“ Jón Ásgeirsson Mbl. 10. maí.

„Eitt af því sem gerir söng þessa kórs einkar aðlaðandi er augljós sönggleði.“
„…Kvennakórinn er mjög skemmtileg viðbót við kóralíf í landinu.“ „Stjórnandinn Margrét Pálmadóttir stjórnaði af metnaði og öryggi og píanóleikarinn (Svana Víkingsdóttir) átti ágætt framlag einnig.“
Finnur Torfi Stefánsson DV 9. maí.

Fyrsta æfing á Ægisgötu 7 var mánudaginn 6. júní.

50 ára Lýðveldishátíðin á Þingvöllum 17. júní

Sungið var við Drekkingarhyl þrisvar sinnum fyrir hádegi. Kynning var í höndum Geirlaugar Þorvaldsdóttur, leikkonu og kórfélaga. Þrátt fyrir landsfrægt umferðaröngþveiti náði kórinn að syngja kl. 15:00 á Ingólfstorgi og í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Nordisk Forum í Turku, Finnlandi, 1. – 7. ágúst

Kvennakór Reykjavíkur fór í mikla frægðarför til Finnlands og hélt tónleika fyrir yfirfullu húsi í Solennitetssalnum í Turku. Hópur fólks varð að láta sér nægja að vera á Dómkirkjutorginu og heyra óminn af söngnum. „Samhljómur þessa stóra kórs var ævintýralegur. Agaður, hreinn og djúpur hljómur. Áheyrendur voru mjög snortnir.“ Carita Björkstrand, Resonans 4. tbl. 1994.

Vetrarstarfið hefst

Vetrarstarfið hófst með námskeiði hjá hinni ítölsku óperusöng­konu og söngkennara Eugeniu Ratti sem gaf okkur vítamín­sprautu í októberbyrjun. Hún lagðist á gólfið og bauð konum að stíga á þindarstuðning sinn!

Kvennakór Reykjavíkur hélt tónleika í Seljakirkju 9. október, í boði Kven­félags Seljakirkju, með afar fjölbreyttri dagskrá. Hópar úr kórn­um fluttu negrasálma og madrigala.

Októberhátíð var haldin 29. október og var með þýsku ívafi og tilheyrandi veiting­um og bæheimskum dansi. Í þetta sinn hélt 1. alt skemmtunina.

Kvennakór Reykjavíkur ásamt Vox Feminae hélt tónleika í Hveragerðiskirkju, 6. nóvember, á vegum Tónlistarfélags Hveragerðis og Ölfuss.


„Ó, helga nótt“ aðventutónleikar í Hallgrímskirkju 30. nóvember og 2. desember

„Hljómur Kvennakórsins er jafn og fallegur...“ „...ljóst [er] að vel hefur verið unnið og var söngur kórsins hinn fágaðasti...“ „Margrét Pálmadóttir hefur greinilega lagt mikinn metnað í þjálf­un kórsins og stjórnaði af bæði nákvæmni og yfirlætis­leysi.“ Áskell Másson DV 3. des.

„Kvennakór Reykjavíkur er að verða stórveldi hvað varðar sönguppeldi kvenna og sem kór er hann að ná því marki að teljast með bestu kórum hér á landi og líklegan til stórra verka í framtíðinni.“ Jón Ásgeirsson Mbl. 3. des.