2008

Fimmtán ára afmæli í janúar, norrænt og íslenskt kvennakóramót í apríl.
Á 15 ára afmæli Kvennakórs Reykjavíkur, 25. janúar, var haldið þorrablót í Þrastarheimilinu í Hafnarfirði. Salurinn var skreyttur með tónleikaplakötum Andreu og sýndur var „búningaannáll“ með viðeigandi söngvum.

Annað norræna kvennakóramótið

Í byrjun árs var mikið prjónað. Ákveðið var að konur væru þjóðlegar, í ullarvestum með íslenskum lopapeysumynstrum, á öðru norræna kvennakóramótinu sem haldið var í Þrándheimi í Noregi, 10. – 13. apríl með um 400 þátttakendum. Það fyrsta hélt Kvennakór Reykjavíkur í apríl 2000. Mótið var sett með miklum glæsibrag í Niðarósdómkirkju, þar sem norskir kvennakórar sungu fyrir gestina, eftir það var móttaka í stórri sundhöll og var þetta allt mjög skemmtilegt. Næstu daga voru fjölmargir tónleikar þar sem allir kórar komu fram og var ákaflega fræðandi að heyra hvað aðrir kórar eru að gera. Einnig var æfing í Dómkirkjunni þar sem þátttökukórarnir æfðu saman verk sem samið var í tilefni kóramótsins, söngnum var stjórnað með aðstoð ljósameistara og var það mjög sérstök upplifun. Ýmsir vinnuhópar voru einnig að störfum og unnum við með frábærum stjórnanda Mariu Guinand, sem kynnti m.a. fyrir okkur afar fallega Ave Maríu eftir Carillo frá Venezuela - það verður skemmtilegt að syngja hana fyrir íslenska áheyrendur.
Lokakonsertinn var stórkostlegur og endaði þetta kvennakóramót með veislu og enn meiri skemmtilegum samsöng. Virkilega vel heppnað og vel skipulagt mót og það voru þreyttar og glaðar konur sem héldu heim.

Landsmót á Höfn í Hornafirði

Dagana 25. til 27. apríl var 7. landsmót kvennakóra haldið á Höfn í Hornafirði.
Kvennakór Hornafjarðar var gestgjafi mótsins. Lagt var af stað austur 24. apríl og tekið þátt í sumargleði með leikskóla Suður-Víkur á sumardaginn fyrsta. Mótið hófst upp við Hoffellsjökul, þar sem karlakórinn Jökull tók á móti kvennakórunum með söng og hressingu sem var mjög tilkomumikið og skemmtilegt. Á kóramótinu söng Kvennakór Reykjavíkur sína efnisskrá í íþróttahúsinu 26. apríl en 27. apríl sungu konur úr kórnum með ýmsum vinnuhópum. Einnig sungu allar 400 konurnar sem tóku þátt í mótinu sameiginlega, undir stjórn Svavars Sigurðssonar. Veður var gott þessa helgi og stórkostlega fagurt á Hornafirði. 

1.maí

Að vanda sá kórinn um kaffið 1. maí fyrir BSRB-menn. Köku- og brauðhlaðborðið var glæsilegt að vanda og kórinn sá einnig um að fólk neytti kræsinganna undir ljúfum tónum.

„Djass“

Vortónleikarnir „Djass“ voru haldnir í Grensáskirkju 14. og 17. maí. Á efnisskrá voru djass- og dægurlög, íslensk og erlend. Í stað efnisskrár, voru kynningar fluttar af Geirlaugu Þorvaldsdóttur. Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir var einsöngvari og hljómsveit skipaði Vignir Þór Stefánsson, píanó, Gunnar Hrafnsson, kontrabassi og Erik Qvick, trommur. Stjórnandi var Sigrún Þorgeirsdóttir.

Húsnæðismál

Talsvert var hugað að húsnæðismálum kórsins og við komumst að því að við ráðum ekki við að kaupa húsnæði sem hentar fyrir kórinn. Því var ákveðið að leita til Reykjavíkurborgar. Formaður og stjórnandi kórsins fóru á fund borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, 3. september 2008. Hún ráðlagði okkur að sækja um ótímabundinn rekstrarstyrk til Reykjavíkurborgar svo og styrk vegna starfs eldri borgara vegna Senjorítanna. Í kjölfarið bauðst kórnum æfingahúsnæði, okkur að kostnaðarlausu, í félagsmiðstöðinni við Vitatorg og hófust æfingar þar 1. október. Kórinn er mjög þakklátur Reykjavíkurborg fyrir góða lausn mála.
Ég heyrði þau nálgast
Á fyrsta sunnudag í aðventu, 30. nóvember, frumfluttu 8 kvennakórar nýtt kórverk eftir Jón Ásgeirsson sem hann samdi við ljóð Snorra Hjartarsonar, Ég heyrði þau nálgast. Tónskáldið, Jón Ásgeirsson, var viðstaddur flutninginn er Kvennakór Reykjavíkur frumflutti lagið í Breiðholtskirkju. Tónverkið var samið að beiðni Sambands íslenskra kvennakóra, Gígjunnar.

„Ave María“

Aðventutónleikar „Ave María“ voru haldnir í Kristskirkju, Landakoti, 3. og 7. desember. Tónverkin á efnisskránni voru flest tileinkuð heilagri guðsmóður. Mörg verkanna hafði kórinn sungið áður á aðventutónleikum en Salutatio Mariae eftir Jón Nordal, Ave Maria eftir César Carillo og Ég vil lofa eina þá eftir Báru Grímsdóttur og Magnificat eftir Javier Busto, voru flutt af Kvennakór Reykjavíkur í fyrsta sinn, á þessum tónleikum. Eitt lag var tileinkað annarri Maríu, Maríu Magdalenu. Einnig var flutt Ég heyrði þau nálgast eftir Jón Ásgeirsson. Einsöngvari var Elín Ósk Óskarsdóttir, hörpuleikari Elísabet Waage og Sigrún Þorgeirsdóttir stjórnaði.
Starfsemi kórsins lauk með jólasamsöng og söng í Kristskirkju á annan í jólum, eins og undanfarin ár.