1993
Aðdragandi að stofnun Kvennakórs Reykjavíkur
„Þessa dagana standa yfir stífar æfingar hjá Kórskóla Margrétar J. Pálmadóttur í Kramhúsinu því Kórskólinn ætlar að halda jólatónleika í Kristskirkju 10. desember. …en þetta verða væntanlega síðustu tónleikarnir sem þessi hópur stendur að undir merki Kórskólans því um áramót stendur mikið til, þá ætlum við að stofna formlega Kvennakór Reykjavíkur. Það hefur lengi verið draumur kórstjórans okkar Margrétar J. Pálmadóttur að stofna kvennakór hér í Reykjavík. …Við höfum notað haustið til undirbúnings og biðjum söngelskar konur um að hafa nú augu og eyru opin því við munum hafa inntökupróf í kórinn í janúar. Nú leitum við að góðum og þjálfuðum röddum til að taka þátt í þessu ævintýri með okkur.“
Heiðrún Dóra Eyvindardóttir, Vera des. 1992.
„Ég hef verið með kórskóla undanfarin tíu ár, en auglýsti fyrir ári á vegum Kramhússins kórskóla fyrir konur. Sú starfsemi gekk mjög vel, við héldum vortónleika með pomp og pragt og gáfum Stígamótum ágóðann. … Það eru um 20 konur í kórskólanum sem ætla að halda áfram. Leiðir okkar skildu í sumar, en síðan var stofnuð undirbúningsnefnd í haust. …Við stefnum að kór með 60 konum og því vantar okkur 40 í viðbót. … Ég mun stjórna kórnum, við verðum með tvo raddþjálfara, meðal annars mun Jóhanna V. Þórhallsdóttir söngkona sjá um raddþjálfun og tónfræðikennslu og Svana Víkingsdóttir er píanisti.“
Margrét J. Pálmadóttir, Mbl. 17. janúar 1993.
Undirbúningsnefndina skipuðu:
Margrét J. Pálmadóttir
Heiðrún Dóra Eyvindardóttir
Rannveig Pálsdóttir
Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir
Sigríður Anna Einarsdóttir
Þóra Magnúsdóttir
Fyrsta æfing í Aðventkirkjunni í Reykjavík var þann 25. janúar og fljótlega varð mikil eftirspurn eftir söng kórsins.
Sungið var á Stöð 2 í beinni útsendingu, 4. mars, vegna söfnunar fyrir veik börn.
„Mætum allar vel greiddar og málaðar, í hvítum blússum og svörtum pilsum eða buxum.“ Stjórnin.
Sungið var: Senn kemur vor og Sprengisandur, í miklum hita og þrengslum.
Kórkonur borðuðu saman í Kornhlöðunni 12. mars og marseraði kvennahópurinn síðan niður á Hótel Borg þar sem kórinn söng á árshátíð Kvennalistans.