2008
Fimmtán ára afmæli í janúar, norrænt og íslenskt kvennakóramót í apríl.
Á 15 ára afmæli Kvennakórs Reykjavíkur, 25. janúar, var haldið þorrablót í Þrastarheimilinu í Hafnarfirði. Salurinn var skreyttur með tónleikaplakötum Andreu og sýndur var „búningaannáll“ með viðeigandi söngvum.
Annað norræna kvennakóramótið
Í byrjun árs var mikið prjónað. Ákveðið var að konur væru þjóðlegar, í ullarvestum með íslenskum lopapeysumynstrum, á öðru norræna kvennakóramótinu sem haldið var í Þrándheimi í Noregi, 10. – 13. apríl með um 400 þátttakendum. Það fyrsta hélt Kvennakór Reykjavíkur í apríl 2000. Mótið var sett með miklum glæsibrag í Niðarósdómkirkju, þar sem norskir kvennakórar sungu fyrir gestina, eftir það var móttaka í stórri sundhöll og var þetta allt mjög skemmtilegt. Næstu daga voru fjölmargir tónleikar þar sem allir kórar komu fram og var ákaflega fræðandi að heyra hvað aðrir kórar eru að gera. Einnig var æfing í Dómkirkjunni þar sem þátttökukórarnir æfðu saman verk sem samið var í tilefni kóramótsins, söngnum var stjórnað með aðstoð ljósameistara og var það mjög sérstök upplifun. Ýmsir vinnuhópar voru einnig að störfum og unnum við með frábærum stjórnanda Mariu Guinand, sem kynnti m.a. fyrir okkur afar fallega Ave Maríu eftir Carillo frá Venezuela - það verður skemmtilegt að syngja hana fyrir íslenska áheyrendur.
Lokakonsertinn var stórkostlegur og endaði þetta kvennakóramót með veislu og enn meiri skemmtilegum samsöng. Virkilega vel heppnað og vel skipulagt mót og það voru þreyttar og glaðar konur sem héldu heim.